Bjart bros er orðið eftirsóknarvert.
Það sem ákvarðar lit tanna er annars vegar litur tannbeins og hins vegar yfirborðslitur tanna, þ.e. tannsteinn og önnur óhreinindi sem fallið hafa á tennur.
Yfirborðslitur tanna stjórnast af dökkum drykkjum, reykingum og ýmiss konar óhreinindum sem setjast á tennur, sem og tannstein.
Sumir eru með dökkar tennur í grunninn, en þá er tannbeinið dekkra að lit. Silfurfyllingar gefa dökkan lit sem og gamlar viðgerðir (postulín og plast).
Slitnar tennur litast hraðar en óslitnar.
Til að sem bestur árangur náist þarf að meta hvert tilfelli fyrir sig því við gætum þurft ólíka meðferð til að ná fram bjartara brosi. Við þurfum að vita hvaðan liturinn kemur og hvaða meðferð hentar best.
Mikilvægt er að meðferðin valdi ekki skaða á tönnum og aðliggjandi vefjum og fólk sé að fjárfesta í meðferð sem skilar árangri.
Aldrei skyldi lýsa tennur nema um heilbrigðar tennur og munnhol sé að ræða.
Ekki má lýsa tennur sem eru með skemmdir eða með ónýtar fyllingar.
Sjúklingar með mjög slitnar tennur og bert tannbein eru líklegri til að finna fyrir aukaverkunum sem og mjög ungir einstaklingar þar sem taugin í tönnum þeirra er mjög stór.
Nýjustu efnin eru með flúori og öðrum uppbyggilegum efnum fyrir tennur og valda ekki skaða ef þau eru notuð í réttum styrk. Misnotkun á tannhvíttunarefnum eða of mikill styrkur getur valdið skaða á tönnum og tannholdi. Þess vegna er mjög mikilvægt að tannhvítun sé gerð í samráði við tannlækni og aldrei nema að undangenginni skoðun tanna.
Nei, tannhvíttun skilar ekki öllum ljósari tönnum. Tannhvíttun virkar best á gular og heilar tennur. Tannhvíttun virkar ekki á fyllingar, postulín, svar-bláar tennur sem litast hafa af silfurfyllingum eða fastan lit í sprungum.
Það fer eftir stöðu tanna í upphafi. Heilar tennur verða sjaldnast jafn dökkar aftur. Algengast er að skerpa þurfi á þeim á u.þ.b. tveggja til þriggja ára fresti ef viðhalda á litnum.
Lýsing á slitnum tönnum er öllu erfiðari og dökkna þær miklu hraðar því tannbeinið drekkur í sig litinn ef það er bert. Slit tanna þarf að laga með tannlituðum fyllingum til að hægt sé að viðhalda ljósum lit og koma í veg fyrir frekari litun í framtíðinni.
Almenn tannhreinsun hjá tannlækni þar sem yfirborð tanna og róta þeirra er hreinsað er lykillinn að því að halda tönnunum út lífið. Beintap er orðið algengasta ástæða tannmissis hjá Íslendingum. Hreinsunin bætir ekki einungis útlit og lýsir tennur, heldur er hún einnig nauðsynleg til að viðhalda heilbrigði tanna og tannvegs.
Oft er þessi hreinsun nægileg til að viðhalda fallegum og hvítum tönnum.
Dæmi:
Viðfangsefni:
Bjart bros er eftirsóknarvert. Litur tanna skiptir máli og ljósar tennur líta oftast út fyrir að vera yngri og hreinni.
Við getum ekki öll fengið bjart bros á sama hátt því það geta verið ólíkar ástæður fyrir lit tanna.
Meðferð:
Í þessu tilviki, þar sem viðkomandi hafði ekki fyllingar í framtönnum, hentaði vel að lýsa tennur með lýsingarefnum og fór þessi meðferð fram á stofunni og tók einungis tvær heimsóknir.
Oftast þarf svo að skerpa á lýsingunni á u.þ.b. tveggja ára fresti.